Hvað er Hringsjá?

Hlutverk Hringsjár er að veita náms- og starfsendurhæfingu skv. lögum 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir, lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar og lögum nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

Hvað er gert?

Starfið snýst um hjálp til sjálfshjálpar og byggir fyrst og fremst á námi og kennslu, ráðgjöf, stuðningi og samvinnu.

Sérstaða

Sérstaða Sérstaða Hringsjár felst m.a. í því að um er að ræða einstaklingsmiðað nám. Samhliða kennslu býðst notanda þjónustunnar að nýta sér sérfræðilega ráðgjöf og í ákveðnum tilvikum er um að ræða einstaklingsmiðaða einkakennslu.

Ársskýrsla Hringsjár fyrir árið 2019 (PDF skjal) gefur góða hugmynd um starfsemina.

Markmið og stefna

Markmið Hringsjár er að veita náms- og starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga, 18 ára og eldri sem vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla þurfa á endurhæfingu að halda til að takast á við nám og/eða að stunda atvinnu á almennum vinnumarkaði. Námið hentar einnig þeim sem hafa litla grunnmenntun eða sértæka námserfiðleika. Stefnt er að því að þeir sem útskrifast frá Hringsjá séu færir um að takast á við nám í almennum framhaldsskólum og finna störf við hæfi á almennum vinnumarkaði.

Endurhæfingin felst í einstaklingsmiðuðu námi í formi styttri námskeiða eða fullu einingarbæru námi með sérhæfðri ráðgjöf og stuðningi. Endurhæfingin miðast við að:

  • leggja eða endurnýja almennan þekkingargrunn einstaklinga
  • undirbúa einstaklinga fyrir almenn skrifstofu- og þjónustustörf, þ.m.t. tölvufærni og bókhaldsþekking.
  • efla persónulega færni einstaklinga, þ.m.t. sjálfstraust og þor.
  • efla raunhæft sjálfsmat einstaklings, svo hann þekki betur sjálfan sig, óskir sínar, hæfileika, getu og takmarkanir.
  • efla félagslega færni einstaklinga
  • auka samfélagslega þátttöku einstaklinga.
  • auka lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna þeirra.

Námsþátturinn

Námið myndar þá umgjörð sem endurhæfingin fer fram í. Nám gerir sömu kröfur til einstaklings og vinna. Einstaklingurinn þarf að hafa markmið, skipuleggja tíma sinn, mæta og skila dagsverki. Kennslugreinar námsins eru:

  • Íslenska: lestur, stafsetning, málfræði, bókmenntir og tjáning, munnleg, skrifleg og leikræn.
  • Enska: talað og ritað mál. Netið notað við kennslu.
  • Stærðfræði: almennur grunnur, verslunarreikningur og tölfræði. Einnig er komið á móts við nemendur með kennslu námsefnis annarra áfanga framhaldsskóla eftir því sem þörf þykir.
  • Bókfærsla: almennur grunnur og tölvubókhald.
  • Samfélagsfræði: almenn félagsfræði, íslenska samfélagið, stjórnarskráin, réttindi og skyldur á vinnumarkaði.
  • Tölvufræði: kennd notkun ýmissa forrita með áherslu á ritvinnslu (Word) og töflureikni (Excel). Einnig tölvupóst, netnotkun, vefsíðugerð og gerð kynningarefnis.
  • Myndlist: fjölþætt skapandi starf, málun, leirmunagerð o.fl.
  • Námstækni: skipulögð vinnubrögð.
  • Náms- og starfsfræðsla: starfsval, ferilskrá, atvinnuumsóknir o.fl.
  • Sjálfseflingarnámskeið: að axla ábyrgð á eigin vellíðan.
  • Ráðgjöf: Náms- og starfsráðgjafi veitir persónulega ráðgjöf ásamt náms- og starfsráðgjöf. Ráðgjafarviðtöl eru einnig veitt utanaðkomandi einstaklingum, oft með tilvísun frá samstarfsaðilum. Útskrifaðir nemendur leita oft ráðgjafar og eftirfylgd við þá er mikilvægur liður starfseminnar.

Endurhæfingarferli einstaklings

Myndin hér fyrir neðan sýnir þau úrræði sem eru til staðar fyrir einstaklinginn í gegnum endurhæfingarferlið hjá Hringsjá.

Endurhæfingarferli Hringsjár á myndrænu formi

Stjórn Hringsjár

Öryrkjabandalagið skipar í stjórn Hringsjár, sem fundar að jafnaði mánaðarlega.

Núverandi stjórn er þannig skipuð:

  • Formaður: Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélagi Íslands
    halldor@midstod.is
  • Meðstjórnandi: Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ
    lilja@obi.is
  • Meðstjórnandi: Frímann Sigurnýasson, SÍBS
  • Meðstjórnandi: Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, Sjálfsbjörg
    gkerik@simnet.is