Móttaka umsókna fyrir inntöku í Hringsjá
Umsóknarfrestur er til 15. maí fyrir haustönn og 15. nóvember fyrir vorönn.
Panta má tíma hjá námsráðgjafa í síma 510 9380 (kl. 9:00 til 15:30) eða senda á almennt netfang Hringsjár,
hringsja@hringsja.is, til að fá frekari upplýsingar og ræða málin.
Inntaka nýnema
Inntökuferli við Hringsjá er þannig:
- Umsókn
Umsækjandi sækir sjálfur um skólavist með því að fylla út umsókn. Greinargerð umsækjanda um persónulegar aðstæður og hvata fyrir námi
hefur áhrif á inntöku í skólann. Mest um vert er að umsækjandi hafi áhuga fyrir því að læra og treysti sér í fullt nám.
- Fullt nám
Fullt nám við Hringsjá er almennt 3 annir. Almennt er ekki unnt að verða við umsóknum frá
nemendum sem áður hafa lokið fullu námi frá Hringsjá.
- Tilvísun
Með umsókn verður að fylgja tilvísun/meðmæli frá viðurkenndum tilvísunaraðila (skv. gildandi þjónustusamningi),
s.s. Tryggingastofnun ríkisins (endurhæfingarmatsteyminu), velferðarþjónustu sveitarfélags, Vinnumálastofnun, heilsugæslu eða öðrum sérfræðingum.
Tilvísunin styður umsóknina og veitir jafnframt upplýsingar um heilsufarssögu viðkomandi.
- Viðtöl
Umsækjandi styður umsókn sína um skólavist með viðtali við námsráðgjafa eða skólastjóra þar sem rætt er um markmiðið með náminu,
og hvort Hringsjá henti þeim markmiðum sem viðkomandi hefur.
- Námskeið
Umsækjandi skal almennt áður hafa lokið a.m.k. 1 námskeiði hjá Hringsjá. Virkni og þátttaka á námskeiðum hefur áhrif
á það hvort umsækjandi hlýtur skólavist. Við lok hvers námskeiðs fyllir kennari út matsblað þar sem hann metur hvort
hann telur að nemandi sé tilbúinn til að fara í fullt nám. Þá er sérstaklega horft til mætinga á námskeiðin og áhuga og virkni í tímum.
- Mat á umsókn
Umsóknir um fulla skólavist eru öllu jöfnu metnar af forstöðumanni og námsráðgjafa Hringsjár. Inntaka nemenda veltur á
því hversu margar umsóknir berast hverju sinni, en heildarfjöldi nemenda við skólann hverju sinni er allt að 60 nemendur.
Við mat á umsóknum er horft til ofangreindra þátta. Öllum umsóknum er svarað skriflega. Ef um er að ræða undantekningu á einhverjum
ofangreindra þátta varðandi umsókn, getur afgreiðsla umsóknar verið borin fyrir stjórn Hringsjár.
Ef umsækjandi er ósáttur við afgreiðslu umsóknar sinnar getur hann vísað máli sínu til stjórnar Hringsjár.
Erindið skal vera skriflegt, og verður í framhaldinu tekið fyrir af stjórninni.
Efnisgjöld
Efnisgjöld á 1. önn eru kr. 27.000, en kr. 17.000 á 2. og 3. önn. Efnisgjöldin greiðast við upphaf náms á hverri önn.
Eyðublöð
Umsóknareyðublað er hægt að fá á skrifstofu Hringsjár, Hátúni 10d, eða sækja hér með því að smella á myndina hér fyrir neðan.
Umsókn (pdf skjal)
Tilvísunareyðublað
Með umsókn þarf almennt að fylgja með tilvísun frá þar til bærum aðila. Eyðublað fyrir tilvísendur er í tenglum hér fyrir neðan.
Tilvísun (pdf skjal)
Tilvísun (Word skjal)