Raddir nemenda

Hvað segir fólkið okkar um Hringsjá?

Fengu stuðninginn sem þurfti

Mynd af Gunnari Sölva og Þorgerði

Þessi frásögn Þorgerðar Ævarsdóttur og Gunnars Sölva Theodórssonar, fyrrum nemenda Hringsjár, birtist í Fréttablaðinu 5. maí 2017.

„Ég var að leita að einhverri endurhæfingu eftir að ég kom úr áfengismeðferð. Ég hafði ekki verið í skóla í tvö ár og treysti mér ekki strax í venjulegan framhaldsskóla. Mér hafði alltaf gengið illa að læra, sérstaklega stærðfræði. Ég var áður í Fjölbraut í Garðabæ en þjáðist af félagsfælni, fór að drekka mikið, hætti í vinnu og datt út úr skólanum,“ útskýrir Þorgerður Þ. Ævarsdóttir en hún útskrifaðist frá Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu, þann 18. maí 2017.

Hjá Hringsjá hafi hún fundið stuðninginn og utanumhaldið sem hún þurfti til að ná sér á strik.

„Þetta bjargaði mér. Að komast í rútínu og hafa eitthvað að gera á hverjum degi. Annars var ég bara sofandi heima allan daginn og ekki fær til þess að gera neitt,“ segir Þorgerður.

„Ég heyrði af Hringsjá hjá vinkonu minni sem hafði farið á kynningu. Ég talaði við námsráðgjafa og fór á námskeið. Svo komst ég inn. Ég náði að byggja mig upp og sjálfstraustið líka. Námið er mjög einstaklingsmiðað og sniðið að getu hvers og eins. Til dæmis geta nemendur verið að vinna með mismunandi bækur. Í framhaldsskóla þurfa allir að vera á sama stað á sama tíma. Það reyndist mér erfitt en í Hringsjá var mér tekið eins og ég er og þar fékk ég auka aðstoð við það sem þurfti,“ segir Þorgerður.

Hún stefnir ótrauð á frekara nám. „Ég er búin að sækja um í Fjölbraut í Ármúla og mig langar að klára stúdentinn. Ég verð áfram í eftirfylgni hjá Hringsjá og svo langar mig í háskóla Ég hef áhuga á að læra sálfræði.“

Sjálfstraustið óx

Gunnar Sölvi Theodórsson tekur undir með Þorgerði, stuðningurinn hafi verið ómetanlegur hjá Hringsjá og hvetjandi andrúmsloftið í skólanum hafi byggt upp sjálfstraustið.

„Ég byrjaði og hætti í menntaskóla ansi oft. Ég var þjakaður af mikilli félagsfælni og kvíða. Ég fór eingöngu í menntaskóla af því að allir jafnaldrar mínir gerðu það, ég vissi sjálfur ekkert hvað mig langaði til að gera,“ segir Gunnar. Honum var ráðlagt að læra iðn og reyndi fyrir sér í Borgarholtsskóla.

„Ég var svo kvíðinn að ég þorði ekki upp í matsal að borða, bara það að vera inni í byggingunni var kvöl og pína. Svo liðu árin í neyslu og rugli. Mig langaði alltaf að halda áfram námi en náði mér ekki á strik fyrr en eftir meðferð á Vogi. Eftir hana var ég í eitt og hálft ár á áfangaheimilinu Draumasetrinu þar sem félagsráðgjafi sagði mér af Hringsjá.“

Gunnar segir Hringsjá frábæran vettvang til að byggja sig upp. Umhverfið rólegt og þar mæti fólk skilningi. „Fólk veit að allir sem eru hér hafa sínar ástæður. Hver og einn er að fást við sitt og fólk sýnir samkennd og hlýhug. Maður fær mikinn stuðning frá kennurunum og námið er einstaklingsmiðað. Hér hefur maður einnig aðgang að námsráðgjafa, félagsráðgjafa og sálfræðingi á staðnum. Þegar sjálfstraustið var komið fann ég fljótlega að námið sem slíkt vafðist ekki fyrir mér. Ég gat rumpað verkefnum af hratt og fékk þá að bæta við mig. Mér gengur vel og stefnan er að fara í Háskólabrúna. Ég gæti þurft að sækja einhverjar einingar í fjarnámi en 25 ára reglan setur manni dálítið stólinn fyrir dyrnar.“


Hringsjá hefur verið lífsbjörgin mín

Mynd af Helgu að störfum

Þessi frásögn Helgu Sigurðardóttur, fyrrum nemanda Hringsjár, birtist í Fréttablaðinu 6. janúar 2017.

Starfið hjá Hringsjá snýst um að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og byggir helst á námi, kennslu, ráðgjöf og stuðningi. Námið er einstaklingsmiðað og hentar vel þeim sem hafa litla grunnmenntun eða eiga erfitt með nám. Helga segir að Hringsjá hafi gjörbreytt lífi sínu. „Þetta var eins og að fá lottóvinning,“ segir hún. Helga var búin að glíma við stoðkerfisvandamál og fæðingarþunglyndi í langan tíma þegar hún ákvað að taka líf sitt í gegn.

Mikið þunglyndi

„Ég þjáðist af miklu þunglyndi og vandamálum í stoðkerfi. Ég hafði ekki verið virk á vinnumarkaði í tíu ár. Einn daginn var ég að hjálpa syni mínum með stærðfræði og uppgötvaði að ég kunni ekki það sem hann var að gera. Það varð kveikjan að því að ég leitaði til Hringsjár en ég hafði heyrt um starfsemina frá vini mínum. Hann talaði fallega um starfsemina, vel væri hugsað um hvern og einn með frábærum árangri,“ segir Helga en fyrsta skrefið var að fara á Reykjalund í endurhæfingu. „Meðal annars var lögð áhersla á hugræna atferlismeðferð sem gerði mér mjög gott,“ segir hún.

Góð endurhæfing

„Eftir að hafa verið í endurhæfingu um tíma sóttu iðjuþjálfarar á Reykjalundi um fyrir mig hjá Hringsjá. Til að komast að þurfti maður að sýna virkilega mikinn áhuga á bata. Ég fór á tvö námskeið, annað í bókhaldi og hitt í tölvum. Mjög áríðandi var að stunda námið af heilum hug og mæta í alla tíma,“ útskýrir Helga.

„Þegar ég sóttist eftir að komast að hjá Hringsjá voru um eitt hundrað umsóknir. Rúmlega tuttugu komust inn svo þetta var algjör lóttóvinningur fyrir mig,“ segir hún.

Lesblinda uppgötvaðist

Helga fór í nám hjá Hringsjá sem gaf einingar til áframhaldandi náms. „Námið byggir á hraða sem hentar hverjum og einum. Þarna uppgötvaðist að ég væri lesblind sem ég hafði enga hugmynd um. Allt í einu var ég ekki heimsk eins og ég hafði alltaf talið mig vera. Ég átti mjög erfitt með að læra á sínum tíma. Það var mér um megn að þurfa að fara upp að töflu og lesa upphátt, eins og tíðkaðist þá. Það var mikil niðurlæging þegar kennarinn kallaði mig upp enda er þetta eitthvað það versta sem hendir þá sem eru lesblindir,“ segir Helga.

„Það var hrikalegt að lesa upp fyrir bekkinn og sjá bara annað hvert orð. Ég féll í stærðfræði og íslensku og flosnaði síðan upp úr skóla. Ég fékk þau skilaboð frá kennurum að ég væri tossi,“ segir Helga.

Það var því mikil blessun fyrir hana að fá greiningu og breytti öllu fyrir hana í náminu.

Vildi ekki vera föst í örorku

„Eftir að ég byrjaði í Hringsjá fékk ég níu og tíu í stærðfræði og átta í íslensku. Í dag get ég hjálpað börnum mínum með heimalærdóminn. Það er góð tilfinning,“ rifjar hún upp. Námið var þrjár annir og Helga lauk því með glans. Hjá Hringsjá fékk hún einnig aðstoð við hreyfingu í líkamsræktarstöð Sjálfsbjargar. „Ég var mjög kvíðin þegar ég byrjaði hjá Hringsjá en það breyttist fljótt. Ég hefði aldrei getað staðið upp fyrir framan fólk áður. Núna er ég í stjórn Félags flogaveikra en ég greindist með flogaveiki um það leyti sem ég byrjaði í Hringsjá,“ segir hún.

Lyfjatæknir í dag

Eftir að Helga lauk námi hjá Hringsjá fór hún í lyfjatækninám í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Núna starfar hún sem lyfjatæknir á Landspítalanum. „Mig langaði aldrei að sitja föst í örorku,“ segir hún. „Fór strax að vinna eftir námið og líkar það mjög vel. Ég kalla Hringsjá lífsbjörgina mína. Eftir að ég byrjaði hjá Hringsjá varð einhvers konar nýtt upphaf í lífi mínu. Bara að fara út á meðal fólks og eiga við það samskipti hefur ótrúlega góð áhrif á mann. Ég get því mælt með Hringsjá fyrir alla þá sem þrá að komast aftur út í lífið og uppgötva að mennt er máttur.“


Hélt að ég myndi aldrei geta neitt

Mynd af Helgu að störfum

Þessi frásögn Fanneyjar Viktoríu Kristjánsdóttur, fyrrum nemanda Hringsjár, birtist í Fréttatímanum 6. janúar 2017. Eftir að fara í gegnum Hringsjá dúxaði hún á stúdentsprófi og er nú á leið í krefjandi háskólanám.

Eftir að fara í gegnum Hringsjá dúxaði hún á stúdentsprófi og er nú á leið í krefjandi háskólanám. Fanney segir hér sögu sína.

„Ég var alltaf lasin þegar ég var unglingur og mætti illa í skólann. Enginn fann neina ástæðu, ég bara alltaf þreytt og illa upplögð. Þegar kom að því að fara í framhaldsskóla var ég harðákveðin í að standa mig vel enda vissi ég að þar er ekki sami slaki og grunnskólinn býður upp á, í framhaldsskólanum verður þú að mæta, annars fellurðu bara. Ég byrjaði vel en gekk alveg fram af mér í skólanum og fékk í kjölfarið mitt fyrsta MS kast og flosnaði upp úr skóla sem var töluvert áfall. Ég var sautján ára og missti þennan hvata sem allt ungt fólk á að hafa. Eftir eitt slæmt MS kast fór ég á Reykjalund til að ná upp þrótti. Þar hitti ég sálfræðing sem þekkti vel til í Hringsjá og spurði hvort ég væri til í að prófa svoleiðis skóla. Ég hélt ekki, viss um að ég hefði ekki neina orku eða getu til að mæta neinsstaðar. En hann hvatti mig áfram og ég ákvað að prófa. Og nýr heimur opnaðist,“ segir Fanney.

„Námið í Hringsjá eru þrjár annir og svo fer maður alltaf á námskeið líka. Það er verið að gefa fólki annað tækifæri til að byggja upp grunn svo að það er alveg byrjað frá byrjun, ég byrjaði á plús og mínus og grundvallarmálfræði í íslensku. Ég lærði samt mest á sjálfa mig, fór að trúa að ég gæti eitthvað, væri kannske bara pínu klár, gæti kannske mætt og mögulega staðið mig.

Í Hringsjá fékk ég mýkt og skilning en líka hvatningu, og þetta er eiginlega eins og verið sé að kveikja ljós í dimmu herbergi. Það er lygilegt hvað þessi blessaði skóli og allt starfið sem þar fer fram gerir fyrir fólk. Ég var komin á stoppistöð, búin að sætta mig við að ég myndi aldrei gera neitt, aldrei læra neitt eða vinna, að þar sem ég væri með MS væri ég dæmd til að vera bara heima og stimpla mig út úr samfélaginu. Ég var ekki stolt af þessu hlutskipti en datt ekki í hug að það væri neitt við því að gera,“ segir hún.

„Ég var í rauninni svo uppnumin yfir því að geta lært að ég var ekkert alveg viss um hvað ég vildi gera. Ég vissi samt að það heillaði mig að vera í umönnun og aðstoða aðra. Og mig langaði að prófa að vinna sem ég sjálf, ekki tala á blaði. Ég þurfti svo að fara aftur á Reykjalund og meðan ég var þar var hringt frá FB þar sem ég hafði verið í eina önn. Þar var verið að fylgjast með því fólki sem hafði verið í skólanum, hvað það væri að gera og hvort það vildi koma aftur í skólann. Ég ákvað að slá til og skella mér í sjúkraliðanám þar.

Ég byrjaði hægt, tók bara níu einingar fyrstu önnina, því ég hélt að ég hefði kannske verið of vafin í bómull í Hringsjá. En svo gekk þetta svo vel að ég útskrifaðist núna í desember með stúdentspróf af sjúkraliðabraut og ég dúxaði! Hver hefði trúað því að litli krakkinn sem slefaði á samræmdu og féll meira að segja í stærðfræði myndi dúxa í framhaldsskólanum sínum?

Ég þakka Hringsjá alveg klárlega fyrir þennan metnað sem þau kveiktu innra með mér og stuðninginn sem ég fékk þar. Ég þarf að hafa fyrir því að læra og ég eyði miklum tíma í það. En ég uppsker algerlega það sem ég sái af því að í Hringsjá lærði ég að læra.

Ég stefni á að fara í hjúkrunarfræði næsta haust, nokkuð sem mér datt aldrei í hug að ætti eftir að liggja fyrir mér. En ég bíð spennt og ekkert stressuð því ég er vel undirbúin.

Ég vil segja við fólk í minni stöðu sem les þessa grein: Þetta er hægt! Bara prófa og halda áfram að reyna því það má gera mistök og það liggur ekkert á! Þetta hefst á endanum!

Það góða við þetta allt er að maður finnur sér svo alltaf ný markmið og eitthvað nýtt að gera og stefna að. Ég er komin með stefnu og markmið og leiðin liggur bara upp á við!“


Fannst ég vera komin heim

Andlitsmynd af Maríönu Carmen

Þessi frásögn Maríönu Carmen, fyrrum nemanda Hringsjár, birtist í Fréttatímanum 22. maí 2015.

"Góður skóli", segir Mariana Carmen Sineavschi, sem í útskrifaðist frá Hringsjá náms- og starfsendurhæfingu vorið 2015 eftir þriggja anna nám.

„Ég mæli þúsund prósent með skólanum. Þetta er ekki bara besti skóli á Íslandi heldur í heiminum.

Þegar ég byrjaði í Hringsjá fannst mér eins og ég væri komin heim. Þar eru allir svo vinalegir, persónulegir, kurteisir og hjálplegir. Hver og einn fær góðan stuðning og námið er mjög einstaklingsmiðað. Stuðningurinn miðar ekki aðeins að náminu heldur fékk ég þar bæði sálrænan og félagslegan stuðning,“ segir Mariana ánægð.

Í Hringsjá lærði Mariana meðal annars félagsfræði, ensku, stærðfræði, bókhald, íslensku, heimspeki, sálfræði, upplýsingatækni og námstækni.

„Mig langaði að klára stúdentspróf en ég var ekki tilbúin að fara í almennan skóla. Ég var ekki vel á mig komin andlega og líkamlega og fór því á Reykjalund. Þar var mér bent á að fara í Hringsjá og Virk starfsendurhæfingarsjóður greiddi námið fyrir mig. Mér var sagt að Hringsjá væri góður skóli, bæði fyrir þá sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að læra og fyrir útlendinga en ég er frá Rúmeníu og hef búið á Íslandi í tæp tólf ár. Það kom svo sannarlega í ljós að skólinn var góður því ég er næstum döpur yfir að vera að útskrifast úr Hringsjá.“

Mariana ætlar þó ekki að kveðja Hringsjá alveg og mun fá stuðning þaðan næsta haust til að stunda skrifstofunám hjá NTV.

„Ég var í tölvubókhaldi í Hringsjá á síðustu önn og er nú á framhaldsnámskeiði í tölvubókhaldi hjá NTV. Svo langar mig í löggilt bókaranám seinna. Draumurinn er að klára stúdentspróf en það er erfitt þar sem fólk eldra en 25 ára getur ekki lengur farið í framhaldsskóla. Það ætti bara að vera hægt að taka stúdentsprófin í Hringsjá,“ segir hún og brosir.


Kom boginn inn en gekk teinréttur út

Mynd af Kristjáni við trén utan við Hringsjá

Þetta viðtal við Kristján, fyrrum nemanda Hringsjár, birtist í Fréttatímanum 16. maí 2014.

Þetta er búið að vera algjör snilld,“ segir Kristján Jónsson sem í vikunni útskrifaðist frá Hringsjá – náms- og starfsendurhæfingu eftir þriggja anna nám.

„Mér finnst ég hafa þroskast mikið á þessum mánuðum og hér hafa góðir hlutir gerst. Ég kom boginn inn en gekk teinréttur út,“ segir Kristján.

Hann verður fimmtugur í næsta mánuði og sat síðast á skólabekk árið 1991. „Ég á mér neyslusögu, var lengi í brennivíni og í fíkniefnum í seinni tíð. Nú er ég búinn að vera edrú í fjögur ár eftir að hafa farið í meðferð hjá SÁÁ.“

Eftir að Kristján lauk meðferð lá leið hans í Grettistak þar sem félagsráðgjafar á vegum borgarinnar hjálpa fólki við endurhæfingu. Kristjáni gekk hins vegar illa að ná sambandi við sinn ráðgjafa sem hvatti hann til að senda sér bara tölvupóst sem hún myndi svara um hæl. „Það var hlutur sem ég kunni bara alls ekki á og ég sagði henni það. Þá benti hún mér á að rétt væri að ég færi á tölvunámskeið inni í Hringsjá sem ég og gerði. Mér fannst svo gaman að vera þar að ég fór í kjölfarið á minnisnámskeið þar. Og eftir þessi tvö námskeið var ég farinn að átta mig á því að ég gæti alveg verið í skóla. Það hafði lengi verið draumur hjá mér en ég hafði ekki þorað það mér fannst ég ekki eiga heima þar. Ég sá að ég gat alveg lært.“

Samhliða náminu í Hringsjá hefur Kristján verið að læra í Tækniskólanum. Þar er hann að ljúka sveinsprófi í málaraiðn. „Ég hef lokið 33 einingum í Hringsjá og réttindin eru handan við hornið í Tækniskólanum. Og það eru margir aðrir jákvæðir hlutir í gangi. Fimmtán ára dóttir mín býr til dæmis hjá mér í dag og ég er búinn að ráða mig í vinnu,“ segir hann.

Kristján kveðst mæla með náminu í Hringsjá. „Þetta er eitt það skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Maður kemur syngjandi þaðan út. Þetta er einstaklingsmiðað nám og þú ert ekki í samkeppni við einn eða neinn. Ef þú ert eitthvað á eftir hinum þá ertu samt í góðum málum. Þú færð þá aðstoð sem þú þarft.“


Börnin mín trúa því ekki hvað mér gengur vel

Mynd af Svölu

Þetta viðtal við Svölu Arnardóttur, fyrrum nemanda Hringsjár, birtist í Fréttatímanum 10. janúar 2014.

Þegar ég ólst upp var ekki búið að viðurkenna að það væri til eitthvað sem heitir lesblinda. Mig langaði bara að læra að lesa og fór í Hringsjá með það markmið,“ segir Svala Arnardóttir.

Svala stundaði nám í Hringsjá,náms- og starfsendurhæfingu, og segir að námið hafi breytt lífi sínu til hins betra.

„Ég var 45 ára þegar ég byrjaði, með uppkomin börn, og var búin með markmiðin. Ég var ekki í vinnu heilsunnar vegna og ákvað að prófa þetta nám. Maðurinn minn hafði verið þarna eftir að hann fór í bakinu. Þetta var frábær skóli og það besta sem hefur komið fyrir mig. Í dag er ég orðin fluglæs og er í námi. Þetta er eitthvað sem ég bjóst aldrei við í mínu lífi,“ segir Svala.

Nú stundar Svala nám í Menntaskólanum í Kópavogi og útskrifast sem rekstrarfulltrúi eftir þessa önn. Eftir það er stefnan tekin á nám til að verða löggiltur bókari. „Ég bjóst aldrei við að verða neitt en nú langar mig að fara að læra markaðsfræði. Sjálfstraustið er allt annað.“

Saga Svölu er alger sigursaga. „Já, mér finnst oft eins og ég lifi bara ekki mínu eigin lífi. Börnin mín trúa þessu ekki einu sinni, og hvað þá ég.“

Lykilatriðið, að sögn Svölu, er að þora að taka fyrsta skrefið. „Þetta byrjaði með því að fara og banka upp á hjá Hringsjá. Ég mæli með þessu fyrir alla. Það er margt fólk á mínum aldri til dæmis sem kláraði ekki grunnskólann. Það kannski heldur að lífið sé búið en það þarf svo sannarlega ekki að vera.“

Grunnurinn sem Svala fékk í náminu hjá Hringsjá hefur svo sannarlega skilað sér. Hún kveðst hafa verið smeyk við að stíga skrefið og hefja nám í MK en óttinn hafi reynst ástæðulaus. „Það er fagfólk hjá Hringsjá og ég var vel undirbúin. Nú er ég meira að segja búin að halda kynningu á ensku!“

Svala Arnardóttir breytti lífi sínu til hins betra þegar hún fór í nám hjá Hringsjá. Hún segist aldrei hafa búist við því að verða neitt, en nú stefnir hún á að verða löggiltur bókari. Mynd/Hari


Svona kemur lífið sífellt á óvart

Elísa ásamt Helgu forstöðumanni.

Hér er frétt sem birtist í Fréttablaðinu 18. maí 2013:

Líf Elísu Dagmarar Andrésdóttur tók miklum breytingum þegar hún settist aftur á skólabekk eftir margra ára fjarveru. Hún útskrifaðist úr náms- og starfsendurhæfingu Hringsjár fyrr í vikunni auk þess sem hún lauk námsbrautinni Skrifstofubraut 1 frá Menntaskólanum í Kópavogi.

"Ég lenti í ýmsum áföllum fyrir nokkrum árum og var greind með áfallastreituröskun í kjölfarið. Um árið 2009 fór ég að vinna í sjálfri mér og fór fyrst í endurhæfingu hjá Janus endurhæfingu. Þar frétti ég af náminu hjá Hringsjá og ákvað að sækja um."

Námið hóf hún síðasta haust en hafði áður sótt tvö námskeið fyrr um vorið.

"Í heildina er þetta þriggja anna nám þar sem farið er vítt og breitt yfir mörg ólík fög eins og stærðfræði, íslensku, félagsfræði og bókfærslu. Þetta var virkilega mikil áskorun fyrir mig og í raun vissi ég ekkert hvað ég var að fara út í. Ég féll á samræmdu prófunum í 10. bekk en tók þau upp síðar í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

Á þeim tíma hafði ég engan áhuga á frekara námi enda átti ég alltaf erfitt með nám sem barn. Seinna kom í ljós að ég var með athyglisbrest sem auðvitað hefur háð mér mikið í námi þegar ég var yngri þótt hann geri það ekki með sama hætti í dag."

Sjálf segist hún hafa verið sannfærð um að hún gæti ekki lært stærðfræði en annað hafi komið á daginn. "Mér gekk mjög vel í stærðfræði sem kom mér skemmtilega á óvart. Sama má segja um mörg önnur fög. Námið hefur bara gengið mjög vel og miklu betur en ég átti von á. Það fór svo sannarlega fram úr öllum væntingum mínum. Ég brilleraði til dæmis í bókfærslu en ég átti aldrei von á að ég myndi hafa gaman af slíkum fögum. Svona kemur lífið manni sífellt á óvart."

Góður andi og frábærir kennarar

Elísa gefur kennurum skólans og starfsmönnum bestu einkunn. "Þetta er yndislegt fólk. Ég held að ég hafi aldrei komið inn á stað með jafngóðu andrúmslofti áður. Ég hefði aldrei trúað því fyrir fram. Allt starf kennara einkennist augljóslega af gleði og ánægju yfir kennslunni." Hópurinn sem hóf námið taldi 22 manns en sextán útskrifuðust í vikunni. "Andinn var mjög góður í hópnum og við náðum strax mjög vel saman þótt við kæmum úr ólíkum áttum og værum á ólíkum aldri."

Næsta haust ætlar Elísa að halda áfram í Menntaskólanum í Kópavogi og klára Skrifstofubraut 2 sem hún lýkur vorið 2014. "Síðan er stefnan sett á að ljúka prófi til viðurkennds bókara en það er starfsvettvangur sem ég hrífst mikið af. Um jólin 2014 ætti ég því að vera búin að klára skólagöngu mína, að minnsta kosti í bili."

Fjölskylda Elísu hefur staðið vel við bakið á henni á meðan skólaganga hennar hefur staðið yfir. "Þau hafa hvatt mig til dáða og stutt mig í náminu. Maðurinn minn hefur sérstaklega staðið eins og klettur mér við hlið."


Námið minn stóri lottóvinningur

Sólrún ásamt Helgu forstöðumanni á túninu við Hringsjá. Útskriftarnemar í bakgrunni.

Sólrún H. Jónsdóttir var í hópi 18 nemenda Hringsjár sem útskrifuðust á vorönn 2012. Í því tilefni tók Fréttablaðið viðtal við Sólrúnu. Upphaf viðtalsins birtist hér en afganginn má lesa í sérblaði Fréttablaðsins frá 19. maí 2012.

"Ég er allt of gömul og heimsk til að geta lært." Þetta voru svör Sólrúnar H. Jónsdóttur þegar henni var bent á Náms- og starfsendurhæfingu hjá Hringsjá af ráðgjafa hjá Virk, Starfsendurhæfingarsjóði. Það var fyrir tveimur árum en nú í vikunni útskrifaðist Sólrún úr fullu námi Hringsjár og stefnir á HR í haust. "Ég uppgötvaði að ég var ekkert of gömul og ekkert of heimsk," segir hún hlæjandi og rifjar upp tildrög þess að hún dreif sig í skólann.

"Ég hafði átt í miklum erfiðleikum í mörg ár. Annar drengurinn minn er einhverfur og var mjög mikið veikur. Hann var ýmist inn eða út af spítala í langan tíma og allt okkar líf snerist í kringum veikindi hans. Það tók mikinn toll af yngri drengnum okkar og af mér, bæði andlega og líkamlega en ég þurfti oft að slást við drenginn. Þegar hann fékk búsetuúrræði breyttust aðstæður fjölskyldunnar og ég fór að vinna fulla vinnu á leikskóla. Vinnan með börnunum hjálpaði mér mikið andlega en líkaminn var þá orðinn svo illa farinn að ég þurfti að fara í aðgerð og varð í framhaldinu að hætta að vinna, eftir tæp þrjú ár á leikskólanum."

Sólrún segir það hafa verið áfall að þurfa að hætta að vinna og finna hvernig líkamlegt þrek hennar var orðið að engu. Hún sem alla tíð hafi unnið mikið og viljað standa sig. "Allt í einu átti ég bara að sitja ein heima og ég man að ég hugsaði "er þetta mitt hlutskipti núna?" Mér leið ömurlega.

Ég prófaði því eitt námskeið hjá Hringsjá eftir viðtalið í Virk og eftir það varð ekki aftur snúið," segir Sólrún en hún fór í framhaldinu í þriggja anna fullt nám sem metið er til framhaldsskólaeininga. Hún líkir skólagöngunni við lottóvinning.

"Að hafa fengið þessa hvatningu til náms var minn stóri lottó vinningur. Ég lærði námstækni og skipulagningu og að setja mér markmið. Sjálfstraustið óx þegar ég fann að ég gat þetta og kennararnir hvöttu mig áfram. Í náminu er tekið tillit til allra. Við vorum 12 í bekknum og kennararnir gátu því sinnt hverjum og einum eins og þurfti. Ég hélt til dæmis að ég gæti aldrei lært stærðfræði en kennaranum tókst það sem+engum öðrum kennara hefur tekist," segir hún hlæjandi.

"Ég lærði líka á tölvu en áður kunni ég varla að kveikja á þeim. Svo lærði ég líka bókmenntir og les bækur núna með allt öðru hugarfari en áður. Mér fannst ég jafningi allra í skólanum og uppgötvaði minn styrk og mína getu. Í Hringsjá eignaðist ég líka dýrmæta vini fyrir lífstíð."

Sólrún stefnir á frumgreinadeild HR í haust og ætlar sér að ljúka stúdentsprófi. Hún segir ákvörðunina um að fara í nám hafa umsnúið lífi hennar til góðs og haft áhrif á alla fjölskylduna.

"Yngri strákurinn minn er ofsalega ánægður með mömmu sína og við lærum saman við eldhúsborðið. Hann er stoltur af mér og allt mitt fólk fyrir að ég skildi grípa þetta tækifæri. Þegar líkaminn sagði stopp fannst mér allar dyr lokast. Nú veit ég að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og ég á möguleika."


Aðrir skólar geta lært af Hringsjá

Þetta viðtal við Nínu Sif birtist í Reykjavik, vikublaði 6. október 2012.

Andlitsmynd af Nínu Sif

Nína Sif Pétursdóttir trúði því að hún gæti ekki lært stærðfræði, en eftir nám í Hringsjá fékk hún 10 í einkunn.

Hringsjá er náms­ og starfsendurhæfing fyrir fólk sem vill komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir hlé vegna sjúkdóma, slysa eða annarra áfalla. Á morgun eru 25 ár frá því að starfsemin hófst. Endurhæfingin þar er einstaklingsmiðuð með stoðþjónustu, en markmiðið er að gera nemendurna færa um að takast á við almennt framhaldsskólanám og eða hin ýmsu störf á vinnumarkaði.

Sextíu manns eru í námi hjá Hringsjá núna frá 18 ára uppi í 67 ára, en meðalaldurinn er um 35 ár. Árangurinn er mældur reglulega og samkvæmt síðustu könnun reyndust 70% þeirra sem verið höfðu í námi hjá Hringsjá, vera ýmist í námi eða starfi. Einnig kom fram að liðlega 90% svarenda sögðu lífsgæði sín hafa aukist og að þeim takist betur að sinna daglegu lífi og barnauppeldi.

Reyndi að finna afsakanir til að þurfa ekki að mæta

Ein þeirra sem nýtt hefur sér námið hjá Hringsjá er Nína Sif Pétursdóttir. „Ég var búin að vera þunglynd, félagsfælin og með kvíða og hafði einangrað mig, var bara heima með dóttur mína.“

Nína Sif var í endurhæfingarmeðferð á Hvítabandinu fyrir þá sem loka sig af eftir að hafa alið barn og í framhaldinu fór hún þar á dagdeild. Hjá öðrum sem þar voru heyrði hún af Hringsjá, sem hún hafði ekki heyrt af áður. Sjálfri fannst henni hún ekki vera tilbúin að leita þangað eða fara út að vinna. Hún kynnti sér málið þó aðeins og komst í framhaldinu inn. „En ég var rosalega hrædd við þetta og langaði að hætta við. Ég reyndi að finna allar afsakanir til að sleppa við að mæta og af því að ég komst svo fljótt að, var þetta ennþá verra.“

Stærðfræðieinkunnin snarhækkaði

Nína Sif segir að í raun hafi hún verið hrædd við nám, fundist sjálfri sem hún væri kjáni og gæti ekki lært. Hún hafi til að mynda fengið lágar einkunnir í stærðfræði sem síðan leiddi til þess að hún trúði því að hún gæti ekki lært og hætti í námi sautján ára. Hún væri með stærðfræðiblindu og gæti þetta ekki. „En svo fór ég í Hringsjá og var hjá Halldóri Erni Þorsteinssyni stærðfræðikennara sem er algjör snillingur.

Hann náði að hjálpa mér þannig að ég kláraði tvo áfanga með 10 í lokaeinkunn, sem er svolítið mikið stökk upp á við,“ segir Nína Sif og hlær.

Góð tilfinning að finna árangurinn

Hún stundaði fullt nám í Hringsjá, en í því eru öll grunnfögin kennd. Einingarnar sem út úr því koma eru metnar hjá framhaldsskólunum. Nína Sif kláraði með flestar einkunnir upp á 9 eða 10, lægsta einkunn hennar var 7. Hún segir það hafa verið góða tilfinningu að sjá svona háar tölur á einkunnablaðinu. „Jú það var ótrúlega góð tilfinning. Þegar ég var í grunnskóla var ég alltaf með 6 eða 7 í einkunn og hélt að ég gæti ekki lært og að allar stelpurnar væru miklu klárari en ég. Mig hefur alltaf langað mikið að læra og hef áhuga á rosalega mörgu, en það var alltaf stærðfræðin sem stoppaði mig. Ég leitaði að ýmsu námi, en sá að alltaf var gert ráð fyrir stærðfræði, þannig að það var útilokað.

Þegar maður byrjar að fá svona góðar einkunnir, finnst manni ömurlegt að fá til dæmis 8.“Nína Sif segir að það sem hafi ráðið úrslitum hjá henni hafi verið kennslan. Til dæmis hafi Halldór stærðfræðikennari verið duglegur að útskýra sem og opinn fyrir nýjum aðferðum við að leysa dæmin.

Fegin að hafa farið þessa leið

Nína Sif segir að með viðmóti kennaranna hafi sjálfstraustið aukist hjá henni sjálfri. Hún telur að aðrir skólar geti lært af því sem fram fer í Hringsjá.„Algjörlega. Sérstaklega með stærðfræðina, mér finnst að kennarar verði að vera opnir fyrir fleiri leiðum. Þegar svörin eru „þú átt að gera þetta svona, en ekki hinsegin,“ þá skemmir það rosalega fyrir. Sérstaklega hjá fólki sem er með athyglisbrest.“

Nína Sif segist geta mælt með náminu við hvern sem er í vandræðum. Hún sé gríðarlega fegin að hafa farið þessa leið, þrátt fyrir að hún hafi í upphafi leitað allra leiða til að komast hjá því að mæta.

Maður finnur fyrir fordómum

Hún neitar því ekki að enn gæti fordóma í garð þeirra sem þjást af þunglyndi og fleiri andlegum sjúkdómum og kannski líka í garð þeirra sem stunda nám í Hringsjá. Upphaflega hét þessi þjónusta Starfsþjálfun fatlaðra, en Nína Sif segir það hafa verið rétt skref að breyta nafninu. „Maður finnur alveg fyrir fordómum, þótt það fari skánandi.“

Stundar nám í tanntækni

Nína Sif segist hafa ákveðið að nýta sér endurhæfinguna því hún stefndi á annað nám og vildi búa fjölskyldu sinni betra líf. Hún stundar núna nám við Fjölbrautaskólann við Ármúla í tanntækni, sem kennd er við Háskóla Íslands. Og hún er fegin að hafa ekki látið undan ótta sínum í byrjun og mætt í námið í Hringsjá. „Já, algjörlega. Þetta var rosalega mikil hræðsla hjá mér af því að mér fannst ég ekki tilbúin. En ég var heppin að hafa komist fljótt inn á Hvítabandið þar sem ég síðan heyrði af Hringsjá, annars væri ég kannski ennþá í sama pakkanum. Ég var búin að reyna að fara út á vinnumarkaðinn aftur, en það gekk ekki. Ég fann að ég þurfti að gera eitthvað í málunum og að komast í áframhaldandi nám, það var eitthvað sem mig langaði alltaf,“ segir Nína Sif Pétursdóttir.


Notar vinnusiðferði sjómennskunnar við námið

Andlitsmynd af Þorvaldi Tolla

Þetta viðtal við Tolla birtist á mbl.is 30.6.2013. Viðtalið tók Þórunn Kristjánsdóttir. Myndina tók Rósa Braga. Feitletrun texta í greininni er breyting okkar í Hringsjá.
Tengill við greinina á mbl.is

„Ég var lengi á sjó og tók það vinnusiðferði með mér sem ég hafði lært þar; að halda áfram að vinna og vinna þar til verkefninu lyki. Þetta er ekki flókið,“ segir Þorvaldur Tolli Ásgeirsson, spurður um lykilinn að námsárangri sínum. Hann fékk verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur á BS-prófi í orkutæknifræði frá Keili nýverið. Þorvaldur slasaðist alvarlega við sjómennsku árið 2006. Hann hlaut slæma hálsáverka og einnig blæddi inn á heilann. Í kjölfarið þurfti hann á mikilli endurhæfingu að halda.

„Það kom mér á óvart að námið gekk vel því ég hafði ekki mikla trú á námshæfileikum mínum. Ég féll í öllum greinum nema ensku í samræmdu prófunum á sínum tíma,“ segir Tolli eins og hann er oftast kallaður. „Ég hafði hvorki áhuga né metnað þegar ég var í grunnskóla.“ Hann reyndi að taka upp fögin sem hann féll í í gunnskóla en hætti fljótlega. Úr varð að hann fór á sjóinn með föður sínum í Vestmannaeyjum þá 17 ára að aldri. Hann settist aftur á skólabekk eftir að hafa starfað í tæp tuttugu ár á sjónum. Það kom þó ekki til af góðu því hann slasaðist árið 2006 og var fluttur með þyrlu til höfuðborgarinnar. Hann hlaut slæma hálsáverka og blæddi einnig inn á heilann þegar hann féll niður tæpa tvo metra.

„Mér var bara sparkað út í lífið og þurfti að takast á við nýja hluti.“ Eftir slysið þurfti hann á mikilli endurhæfingu að halda. Hann fór á Reykjalund og eftir það lá leiðin í Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu. Þar opnaði hann skólabækurnar að nýju og hefur ekki lokað þeim síðan.

„Þegar maður fór í þetta eins og hverja aðra vinnu þá var þetta ekkert mál,“ segir Tolli og bætir við að halda sig við efnið, gera það sem beðið er um og skila á réttum tíma eigi stóran þátt í árangrinum. Fátt fer meira fyrir brjóstið á honum en slugs. „Það er algjört forgangsatriði að þegar ég fæ vinnu upp í hendurnar þá klára ég hana.“

Í Hringsjá komst hann að því að námið átti vel við hann. Starfsfólkið hvatti hann áfram til náms. „Þau höfðu miklu trú á mér og aðstoðuðu mig við að komast inn í Keili.“

Tolli fann fljótt að raungreinar áttu mun betur við hann en hugvísindanám. Nám í orkutæknifræði í Keili höfðaði strax til hans. Hann fór í það nám eftir að hann lauk háskólabrú Keilis og hlut verðlaun fyrir vikið. Áfram hélt hann að læra af kappi og sú vinna skilaði sér í viðurkenningu fyrir námsárangur í BS-prófi. Nú er hann á leið út til Danmerkur í meistaranám í olíuverkfræði við DTU, danska tækniháskólann.

„Mikið hefur verið rætt um skort á tæknimenntuðu fólki og tæknifræðingum í samfélaginu. Þegar ég sótti um vinnu fann ég ekki fyrir þessum umrædda skorti,“ segir Tolli og bindur miklar vonir við námið í Danmörku.

Stór biti að kyngja að geta ekki unnið við sjómennsku

„Mér leið alltaf vel á sjónum. Fyrst var það stór biti að kyngja að ég gæti ekki unnið við sjómennsku því það var það eina sem ég þekkti.“ Hann kunni illa við það þegar sjúkraþjálfarar sögðu honum að hann gæti hugsanlega ekki starfað við sjómennsku. Eftir að hafa farið einn þægilegan túr á sjónum varð honum það ljóst að hann gat ekki starfað við þessa líkamlegu vinnu. Verkir í hálsi og herðum ágerðust og hausverkurinn gerði vart við sig. „Þegar ég upplifði það var ekki eins erfitt að sætta sig við það.“

Hann segir að dagamunur sé á verkjunum. Stundum komi dagar sem eru mjög erfiðir en hann heldur niðri verkjunum með því að stunda heita potta og gufu. Í dag hafi hann lært að vera óhræddur við að biðja um hjálp ef það er eitthvað sem hann getur ekki.

Tolli er ákaflega þakklátur fyrir alla þá sem hafa aðstoðað hann, m.a. Sjómannafélag Vestmannaeyja, Ísfélag Vestmannaeyja og sérstaklega er hann þakklátur fyrir stuðning Óskars heitins á Frá og fjölskyldu hans. Þá hefur stafsfólkið í Hringsjá, Reykjalundi og Keili hvatt hann áfram og stutt vel við bakið á honum.

„Mín reynsla af Tryggingastofnun og Lífeyrissjóði Vestmannaeyja er góð. Þar hefur mér verið bent á alla möguleika í styrkjum og leiðum sem auðvelduðu mér að taka þátt í lífinu og stunda námið,“ segir Tolli og bætir við að oftast komi hin hliðin frekar fram.


Hringsjá í útvarpinu!

Mynd af Helgu og Hjörleifi hjá RÚV

Helga Eysteinsdóttir forstöðumaður Hringsjár og Hjörleifur Helgason útskriftarnemi á haustönn 2012 mættu í viðtal hjá síðdegisútvarpi RÚV föstudaginn 11. janúar.

Óhætt er að segja að Hringsjá hafi þar fengið fína kynningu. Við hvetjum alla sem misstu af viðtalinu að hlusta á það.

Hér er tengill á upptökuna á vef RÚV.